Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

Skilmálar

1. gr.

Almennt um dælulykla

Skilmálar þessir gilda um umsókn, útgáfu og notkun dælulykla Atlantsolíu ehf., kt. 590602-3610, Lónsbraut 2, 220 Hafnarfirði („Atlantsolía“) og viðskipti sem stunduð eru með notkun lykilsins.

Dælulykill Atlantsolíu er ætlaður til eldsneytiskaupa á bensínstöðvum Atlantsolíu en með lyklinum eru eldsneytiskaup einfaldari og hraðvirkari. Einnig er hægt að nota lykilinn til að njóta sérkjara á vörum og þjónustu hjá samstarfsaðilum Atlantsolíu.

Dælulykill er eign Atlantsolíu hf. Meðferð, notkun og úttektir með dælulykli eru ávallt á ábyrgð dælulykilshafa eftir að lykillinn hefur verið afhentur.

2. gr. 

Umsókn og útgáfa

Sótt er um dælulykil á vefsíðu Atlantsolíu, í gegnum síma, með tölvupósti eða á skrifstofu félagsins. Með því að sækja um dælulykil staðfestir dælulykilshafi að hafa kynnt sér skilmála þessa ásamt persónuverndarstefnu Atlantsolíu sem er hluti af skilmálum þessum og að hann muni fylgja skilmálunum eftir því sem við á. Óvirkur dælulykill er sendur á skráð heimilisfang dælulykilshafa.

3. gr.

Virkjun og notkun dælulykils

Dælulykill er virkjaður á mínum síðum eða á vef Atlantsolíu með kennitölu og öryggisnúmeri sem fylgir dælulyklinum sem jafnframt telst raðnúmer lykilsins. Eftir að dælulykill hefur verið virkjaður veitir hann afslátt af eldsneyti, með því að leggja dælulykil upp að dælunni, og í kjölfarið er færsla skuldfærð af greiðslukorti dælulykilshafa. Upplýsingar um afsláttarkjör má nálgast á vefsíðu Atlantsolíu. Dælulykill veitir umsaminn afslátt a.m.k. 11 kr. af stöðvarverði nema á sérmerktum lággjaldastöðvum* þar sem verð er lægra og enginn afsláttur veittur. Engu að síður er hægt að greiða með dælulykli á lággjaldastöðvum.

Einungis er mögulegt að tengja eitt greiðslukort við dælulykilinn, annað hvort debet- eða kreditkort. Ekki er hægt að tengja dælulykla við American Express eða Indó kort. Nýtt kortanúmer t.d. við endurnýjun korts endurnýjast ekki sjálfkrafa í dælulyklakerfinu heldur þarf dælulykilshafi að uppfæra það í samræmi við kafla 5 hér að neðan. 

Úttektir gerðar með dælulykli eru  skuldfærðar í gegnum greiðslukortareikning dælulykilshafa. Um úttektir af reikningum dælulykilshafa gilda reglur og skilmálar  viðkomandi fjármálafyrirtækis á hverjum tíma.

Við úttekt með dælulyklinum er framkvæmd heimildafærsla á greiðslukorti sem tengt er við lykilinn sem getur numið allt að 30.000 kr. Færslan er framkvæmd af viðskiptabanka dælulykilshafa til að tryggja að næg innistæða eða heimild sé á kortinu. Heimildarfærsla er bakfærð um leið og viðskipti hafa átt sér stað og einungis er skuldfært af korti sú fjárhæð sem dælt var fyrir. Dælulykillinn virkar svo lengi sem greiðslukortið sem tengt er við lykilinn er í gildi.

*Lággjaldastöðvar Atlantsolíu eru í Kaplakrika, Sprengisandi, Öskjuhlíð, Selfossi og Baldursnesi Akureyri. 

Ef greiðslukortafyrirtæki dælulykilshafa hafnar greiðslu vegna viðskipta dælulykilshafa með lyklinum áskilur Atlantsolía sér rétt til að krefja dælulykilshafa um efndir samkvæmt viðskiptunum ásamt áföllnum vöxtum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

Samstarfsaðilar veita dælulykilshafa afslátt af þjónustu sinni og eru þeir tilgreindir á vefsíðu Atlantsolíu. Um þjónustu og vinnslu persónuupplýsinga hjá samstarfsaðilum gilda skilmálar og persónuverndarstefnur viðkomandi aðila.

Einnig er mögulegt að nota stafrænan dælulykil í smáforriti Atlantsolíu í samræmi við skilmála um notkun smáforrits Atlantsolíu ehf. 

4. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga

Svo unnt sé að stofna, virkja og nota dælulykil Atlantsolíu er nauðsynlegt að vinna tilteknar persónuupplýsingar um dælulykilshafa. Við umsókn um dælulykil er óskað eftir upplýsingum um nafn, kennitölu, heimilisfang, netfang, farsímanúmer og fjölda lykla sem óskað er eftir. Einnig er nauðsynlegt að vinna upplýsingar um bílnúmer ökutækis, reikningsnúmer greiðslureiknings sem tengdur er við dælulykil og/eða númer, tegund og gildistíma þess greiðslukorts (debet- eða kreditkort) sem tengt er við dælulykilinn.

Framangreindar upplýsingar eru einungis unnar svo unnt sé að veita þér þá þjónustu sem óskað hefur verið eftir með umsókn um dælulykil á grundvelli samnings milli þín og Atlantsolíu sem skilmálar þessir kveða á um.

Atlantsolía vinnur einnig persónuupplýsingar um dælulykilshafa  til notkunar í markaðs- og kynningarskyni og í þágu net- og upplýsingaöryggis. Dælulykilshafi getur ávallt andmælt vinnslu í þágu beinnar markaðssetningar kjósi hann að fá ekki sent markaðsefni eða upplýsingar um tilboð eða fríðindi sem tengjast dælulyklinum, óski hann þess. Frekari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga má finna í persónuverndarstefnu Atlantsolíu en hún telst órjúfanlegur hluti af skilmálum þessum.

5. gr.

Skyldur dælulykilshafa

Dælulykilshafi skal einnig tilkynna um allar nauðsynlegar breytingar á notenda- og kortaupplýsingum s.s. símanúmeri, netfangi eða greiðslukortanúmeri á mínum síðum Atlantsolíu eins fljótt og hægt er. Á mínum síðum er einnig hægt að fylgjast með eldsneytisnotkun.

Skráður dælulykilshafi skuldbindur sig til að tryggja að ávallt sé skráður gildur greiðslumáti, þ.e. gilt greiðslukort, fyrir úttektir með dælulykli og greiða að fullu þær úttektir sem gerðar eru með lyklinum hvort sem þær eru í þágu hans sjálfs eða þriðja aðila. Á það einnig við ef úttekir fara fram án vitneskju skráðs dælulykilshafa, ef dælulykilshafi týnir dælulykli eða ef lykillinn kemst í hendur óviðeigandi aðila sem nýta sér dælulykilinn. 

Dælulykilshafi ber ábyrgð á því að dælulykill, greiðslukortaupplýsingar eða aðrar upplýsingar hans komist ekki í hendur óviðkomandi. Glati dælulykilshafi lyklinum skal hann án tafar loka dælulykli á vef Atlantsolíu og/eða loka greiðslukorti sem tengt er við dælulykilinn. Einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver Atlantsolíu á skrifstofutíma í síma 5913100 til að láta loka dælulyklinum. Öll notkun á lykli, þar til honum hefur verið lokað, er á ábyrgð þess sem skráður er fyrir lyklinum og skal dælulykilshafi bera það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna taps eða þjófnaðar á dælulyklinum. 

Misnotkun á dælulykli eða greiðsluupplýsingum dælulykilshafa flokkast sem þjófnaður eða tilraun til þjófnaðar og ber að tilkynna til lögreglu en Atlantsolía ber ekki ábyrgð á slíkri misnotkun. 

Það er á ábyrgð dælulykilshafa að loka dælulykli og farga honum kjósi dælulykilshafi að hætta að nota lykilinn. Dælulyklum í góðu ásigkomulagi er unnt að skila til Atlantsolíu til endurnýtingar eða endurvinnslu. 

6. gr.

Samskipti

Atlantsolía áskilur sér rétt til að senda dælulykilshafa, sem jafnframt telst viðskiptavinur Atlantsolíu, nauðsynleg skilaboð sem tengjast notkun dælulykils, þjónustu og virkni hans, fríðindum og sérkjörum eða annað markaðs- og kynningarefni, s.s. með tölvupósti eða tilkynningum á Mínum síðum eða í smáforriti Atlantsolíu, sem Atlantsolía og tengd félög hafa lögmæta hagsmuni af. 

7. gr.

Ágreiningur

Rísi ágreiningur um efni eða brot á skilmálum þessum, svo og innheimtumál varðandi úttektir með dælulykli, skulu aðilar leitast við að ná sáttum með samningi sín á milli. Reynist það ekki unnt skulu dómsmál rekin fyrir fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

8. gr.

Breytingar á skilmálum og gildistími

Atlantsolíu er hvenær sem er heimilt að breyta skilmálum þessum. Tilkynning um breytingar skulu kynntar handhöfum dælulykla eigi síðar en 15 dögum áður en breyttir skilmálar taka gildi s.s. með tilkynningu inni á Mínum síðum eða með tölvupósti til dælulykilshafa. Breytingar taka gildi við birtingu uppfærðra skilmála á vefsíðu Atlantsolíu. Dælulykilshafi telst hafa undirgengist breytta skilmála haldi hann notkun dælulykils áfram eftir að hafa verið tilkynnt um skilmálabreytingu.

Atlantsolía áskilur sér jafnframt rétt til að gera tæknilegar breytingar og uppfærslur á dælulykilskerfinu í þeim tilgangi að bæta virkni lykilsins og þeirrar þjónustu sem veitt er með honum. Þá áskilur Atlantsolía sér rétt til að hætta með dælulykla hvenær sem er. 

 

Síðast breytt,

18. apríl 2024